Úlfhamssaga

Úlfhamssaga er spennandi ævintýri um grimma valdabaráttu og blóðug átök milli kynslóða og ástina í sinni fegurstu mynd.

Með Úlfhamssögu steig María Ellingsen fram sem leikstjóri og höfundur og fór fyrir hópi listamanna við að skapa sýningu úr fornaldrarrímum þar sem söngur, dans og drama mynda eina heild. Sýningin hlaut frábærar viðtökur, gekk fyrir fullu húsi í Hafnafjarðrleikhúsinu og hlaut sjö tilnefningar til Grímu verðlauna og tvenn verðlaun. Þá ferðaðist sýningin til Færeyja þar sem hópnum var boðið að sýna í Norræna húsinu í Tórshavn.

Meira um Úlfhamssögu:

Úlfhamssaga hefur lengi legið í gleymsku og verið óaðgengileg – sagan sjálf glötuð en kjarninn varðveittur í rímum frá 14.öld. Í nýútkominni doktorsritgerð sinni hefur Aðalheiður Guðmundsdóttir dustað rykið af þessari stórbrotnu og óvenjulegu fornaldarsögu og komið henni í aðgengilegt form.

Úlfhamssaga er ævintýraleg og spennandi – með óvenju djúpa þræði – hún skoðar mannlega náttúru og mannlegt innsæi og sem slík minnir hún á Grimms ævintýri og Grísku Harmleikina. Og því einstakt tækifæri fyrir íslenskt leikhúsfólk að fá slíkan efnivið upp í hendurnar.

” Úlfhamur afklæðist áður en hann gengur í hauginn, hann segir skilið við veröld mannlegra samskipta og gengur nakinn á vald draugsins. Ekki verður honum afturkvæmt þaðan af sjálfsdáðum….”

Sýningin:

Við einsettum okkur að magna upp þennan gamla seið, setja Úlfhamssögu á svið og gefa áhorfendum hlutdeild í þessum fjársjóði. Að láta rímurnar hljóma með frumstæðum norrænum tón um leið og sagan lifnar við í sterkum myndum, dansi og drama. Úr varð stíliseruð sýning sem sprettur úr sungnu sögukvæði sem er óvenjulegur og spennandi útgangspunktur fyrir leikhús.

Listafólkið:

Snorri Freyr Hilmarsson leikmyndahöfundur, Rejo Kela danshöfundur, Eivör Pálsdóttir tónlistakona og María Ellingsen lögðu grunninn að verkinu og hvernig tónlist, myndlist, söngur, dans og drama gætu runnið saman í þessari sýningu. María Ellingsen og Gréta María Bergsdóttir unnu síðan að byggingu verksins og Andri Snær Magnasson skrifaði leiktexta. Björn Bergsteinn hannaði lýsingu, Gideon Kiers videolist og Helga Stefánsdótir og Bergþóra Magnúsdóttir búninga og Ásta Hafþórsdóttir leikgervi. Leikendur í Úlfhams sögu voru Álfrún Helga Örnólfsdóttir, Ásta S. Ólafsdóttir, Esther Talía Casey, Guðjón Þorsteinn Pálmarsson, Jón Ingi Hákonarson, Jón Páll Eyjólfsson, Kristján Franklín Magnús, Lára Sveinsdóttir, Ragnheiður Steindórsdóttir og Sigurður Eyberg.

Sagan:

Gautakonungur Hálfdan er þeim ósköpum ofurseldur að vera úlfur á veturna og ráfar hann í því ástandi um eyðiskóga en í sumarbyrjun ár hvert kemur hann heim í faðm fjölskyldunnar og stjórnar ríki. Hildur drottning Hálfdánar er ósátt við ástand eiginmannsins og eitt sinn þegar konungur komur heimúr útlegð sinni byrlar hún honum svefnlyf og drepur hann. Næsta morgun býður hún Úlfhami syni þeirra að taka við ríki að því tilskildu að hann þiggi hönd hennar líka. Hann neitar og flýr með fóstbræður sína Skjöld og Hermann og Ásmund á skóga og reisir sér virki.

Hildur gerir aðra tilraun til að vinna Úlfham á sitt band og slær þá í bardaga með liðum þeirra. Eftir frækna framgöngu Úlfhams og manna hans, fella þeir fjögur eikartré á Hildi, en hún beitir fjölkynngi sinni og kemst undan.

Ekki líður á löngu þar til Hildur ræðst til atlögu enn á ný og býður honum til veislu ásamt fylgdarliði sínu. Úlfhamur þiggur boðið og sækir veisluna ásamt fóstbræðrum sínum og Dagbjörtu systur sinni. Hildur drottning skemmtir gestum undir borðhaldi með frásögnum um skjaldmey nokkra, Vörn að nafni, sem herjað hafði á Hálfdan Gautakonung. Eftir ósigur hafði hún lagt á konung og liðsmenn hans að þeir skyldu verða að vörgum á veturna. Vörn var því næst drepin og heygð en haugur hennar er nefndur Varnarhaugur. Eftir frásögnina grípur Hildi hamslaus illska og leggur hún við það ýmis álög á viðstadda. Úlfham sendir hún í haug Varnar og skal hann sitja fastur hjá henni ævilangt nema gullbúin kona komi honum til bjargar og taki sæti hans í haugnum. Henni skuli hann þá hins vegar gleyma. Ásmundi skapar hún skamma ævi, en bræðurna Skjöld og Hermann sendir hún til Vallands, þar þeir skuli þrá fugla í stað kvenna.Þegar hér er komið sögu finnst Dagbjörtu , dóttur hennar, komi meira en nóg af svo góðu og nýtir sér kunnáttu sem móðir hennar hafði áður miðlað henni og leggur á Hildi og leiða þau álög til dauða hennar.

Fóstbræðurnir fjórir leggja nú af stað. Úlfhamur kastar klæðum og hverfur í hauginn. Skjöldur, Hermann og Ásmundur fá sér skip, en lenda í óveðri og verða þannig viðskila, að Ásmund rekur á eyju, en þeir bræður komast til Vallands og verða hugstolnir af ást til trana sem þeir reyna árangurlaust að ná. Ásmundur gengur að bæ nokkrum og hittir þar konu, Óttu að nafni sem veit af örlögum þeirra fóstbræðra. Hún er staðráðin í að bjarga Úlfhami, þó svo að hún viti að hann muni gleyma henni og stígur því um borð í bát og léttir ekki för fyrr en hún kemur til haugsins; þá kastar hún einnig klæðum og hverfur inn. Ásmundur gengur á vit örlaga sinna og fellur fyrir dularfullum riddara á eyju Óttu.

Úlfhamur er nú fjáls ferða sinna en getur engan veginn munað hvernig hann komst úr haugnum. Hann hefur leit að fóstbræðrum sínum og finnur þá Skjöld og Hermann á Vallandi, þar sem þeir berjast við berserki. Úlfhamur veitir þeim lið og eftir frækinn sigur koma trönurnar fljúgandi. Við það verða bræðurnir friðlausir og vilja fyrir hvern mun ná þeim. Trönurnar fljúga hinsvegar undan, en Úlfhamur og nýr liðsmaður hans, Atram að nafni – sem reyndar er bróðir Óttu – elta þær og finna þeir loks sofandi í jarðhúsi tvær fríðar ungfrúr og trönuhami við hlið þeirra. Þeir brenna hamina og taka ungfrúrnar –þær Álfsól og Sólbjörtu –með til skipa sinna.

Eftir þetta leggja ungmennin af stað heimleiðis. Sólbjört hressir upp á minni Úlfhams, sem verður staðráðin í að bjarga Óttu úr haugnum. Hann sendir menn eftir Dagbjörtu systur sinni sem skal hitta þau við hauginn og hafa með sér fjóra þræla. Dagbjört liggur ekki á liði sínu og má segja að hún stjórni björgunaraðgerðum. Þau lokka drauginn í haugnum frá Óttu með því að festa þræla Dagbjartar á spjót og nota sem agn. Atram drepur drauginn en Úlfhamur fer út með Óttu, sem er nær dauða en lífi. Að lokum er siglt áfram til Gautlands , þar sem haldið er fjórfalt brúðkaup.

Erindið: Úlfhamssaga fjallar um tvístraðan heim sem verður heill. Valdabaráttu og átök milli kynslóða. Úlfhamssaga endurspeglar þörf og viðleitni til að temja hin grimmu og sjálfhverfu niðurrifsöfl mannlegs eðlis og endar með sigri hins góða yfir hinu illa. Hún fjallar líka um ástina í sinni fegurstu mynd, því elskendurnir eru tákn andstæðna, sem með sameiningu mynda heild.

Þetta á gæti ekki átt betur við í dag þar sem skortur á umburðalyndi fyrir ólíkum menningarheimum er ein meginuppsretta sundrungar og stríða. Í Úlfhamssögu sjáum við að hjá þeirri nýju kynslóð sem tekur við eru allir viðurkenndir og vandamálin eru ekki leyst með stríði heldur með því að sameina krafta sína, nýta sé ólíka eiginleika á jákvæðan hátt og vinna hlið við hlið.

Í Úlfhamssögu líkt og í Hringadróttinssögu (Lord of the Rings) og í Rómeó og Júlíu liggur djúp viska sem getur haft jákvæða þýðingu um leið og hún skemmtir áhorfendum eins og hún hefur gert í gegnum aldir

Leikhús af líkama og sál – Úlfhamssaga:frumsýningarræða:

“Annað Svið er leikhús sem ég geymi í hjartanu og lifnar aðeins þegar eitthvað hreyfir við því.

Þannig var það með forboðna ást systkynanna í Sjúk í ást eftir Sam Shepard, ástina sem fékk hjúkrununarkonuna Dóru til að fljúga burt í Svaninum eftir Egloff, undarlegu móðurástina í Vögguvísu eftir Beckett, skilyrðislausa ást Sölku Völku á Arnaldi og þannig er það einnig með ástina sem tekur á sig ýmsar myndir í Úlfhamssögu. “

Þetta skrifaði ég í leikskránna fyrir Úlfhamssögu eftir að hafa velt fyrir mér hver væri drifkrafturinn í starfsemi minni með sjálfstætt leikhús. Og ég komst að því að það var ekki spurning um nýtt eða gamalt heldur að leikverk eða efniviður snerti mig það djúpt að ég hefði eins og Stuðmenn segja: “energy og trú” til að eyða næstu tveimur eða þremur árum í að fjármagna og atast í að koma því á svið.

En svo skiptir líka máli hvernig vinnuaðferð aðferð er notuð til að nálgast efnið. Af þeim aðferðum sem ég kynntist í Tilraunaleikhúsdeildinni í New York Háskólanum var ég hrifnust af því að byrja á að vinna með líkama og rödd, fara þaðan inní veruleika verksins og andrúmsloft, skoða síðan hver persónan er, hvert samband hennar er við aðrar persónur og hvað hún er að gera í hverri senu. Orðin koma svo seinust og þá er innistæða fyrir þeim og það er auðvelt að læra þau. Þessa aðferð er hægt að nota hvort sem um fyriframskrifað leikrit er að ræða eða verk sem fæðist á æfingatímanum.

Þetta er ekki nein ný aðferð, heldur aðferð sem spratt upp úr tilraunum á sjöunda áratugnum og skólinn sem ég valdi mér byggði á. Þar gætti einnig áhrifa þeirra tilrauna sem Merce Cunningham var að gera í dansheiminum og ekki fór svoleiðis tillraunaleikhús í gegnum New York á þessum tíma að forsprakkarnir væru ekki fengnir til að koma og halda námskeið í hjá okkur í skólanum.

Vandamálið við þessar tilraunaleikhúsaðferðir var helst að þær voru mjög áhrifamiklar í sjálfu sér, ekki síst fyrir þáttakandann sem komst oft í annað ástand í spunanum en um leið og átti að fara endurtaka og reyna að koma í sýningarhæft form dó efnið.

Þið kannist kannski við æfingaferli sem byrjar á spuna og skemmtileg heitum en síðan er handritið tekið fram og hefðbundið uppsetningaferli hefst og það fyrra hefur lítið með það seinn að gera og spuninn skilar litlu sem engu inní endanlega útkomu.

Nú eða það er farið í hina átttina og spunnið og spunnið og síðan er áhorfendum boðið að horfa á hálfgert einkaflipp leikaranna sem hann nær litlu sambandi við.

En þegar það tekst að byggja brú á milli spunans og handritsins verður til einhver galdur, leikhús af líkama og sál og verkinu er miðlað til áhorfandans á mörgum plönum.

Við uppsetninguna á Úlfhamssögu hafði ég þetta að leiðarljósi, magnaðan efnivið sem snerti mig djúpt og þessa vinnuaðferð. Þar sem allt annað var óskrifað blað ákvað ég að að þarna væri auk þess tækifæri til að fara í könunarleiðangur við að semja verkið og valdi ég með mér í fyrsta áfanga leiðangursins Eivöru Páls söngkonu, Snorra Frey Hilmarsson leikmyndahönnuð og Rejo Kela tilraunadansara. Mig langaði til að sjá hvað gerðist ef við hittumst með þennan efnivið, létum hann hafa áhrif á okkur, sjá hvaða hugmyndir kviknuðu hjá hverju og einu útfrá þeirra listformi og láta þær allar í einn pott. Þetta gerðum við nokkrum sinnum á löngum tíma, kynntumst hvort öðru og fórum að stilla okkur inn á hvort annað. Og þess á milli kraumaði Úlfhamssaga í undirmeðvitund okkar allra og ég ásamt Grétu Maríu Bergsdóttur dramatúrg fórum að vinna dramatískan strúktúr fyrir verkið.

Í næsta áfanga leiðangursins síðastliðið vor bættust hópur 10 leikara við ásamt textahöfundi Andra Snæ Magnasyni og tvær vikur var unnið út frá líkama og rödd og það leiddi svo inn í spuna út frá Úlfhamssögu. Þarna varð til sá frásagnamáti, hreyfimunstur og andrúmsloftt sem við notum í sýningunni.

Þarna varð líka til sá samningur við leikara að þetta væri verk sem yrði ekki til án þeirra, verkið myndi spretta út úr þeim og mótast af þeim.

En það er mín trú og að lykilinn að kraftmikilli og lifandi leiksýningu sé að nýta sköpunarkraft leikarans kveikja í púðrinu hans og leyfa honum að blómstra.

Nú um haustið bættust svo aðrir listrænir stjórnendur, í leiðangurinn Helga Stefánsdóttir og Bergþóra Magnúsdóttir búningahönnuðir, Ásta Hafþórsdóttir gerfahönnuður og Björn Bergsteinn Guðmundsson lýsingahönnuður ásamt Gideon Kiers video listamanni.

Næsta verkefni var að búa til brúnna frá frjóum spuna á vormánuðum og fara að færa okkur nær því að gera söguna okkar Úlfhamssögu skiljanlega. Ég tók þá áhættu að halda ferlinu opnu fram á síðasta dag, leyfa hverjum og einum í hópnum að hafða rödd og allar hugmyndir voru prófaðar og af þeim fæddust svo aðrar. Við höfðum það fyrir reglu að tala minna og gera meira.

Leikararnir voru misvanir þessum vinnubrögðum, sumir höfðu sig lítt í frammi til að byrja með og jafnvel báðust afsökunar þegar þeir komu hikandi með sínar fyrstu hugmyndir.

Textahandritið varð til á æfingum og texti prófaður jafnóðum, honum hent, hann endurskrifaður og svo framvegis.

Það kom fyrir að titiringur varð í leiðangursmönnum sem upplifðu sig á berangri og hættusvæði og sáu ekkert út úr augum. En sem leiðangursstjóri vissi ég með reynslu af þessari aðferð að það er partur af því að vinna svona að vera ekki viss og það er nauðsynlegt að halda það út og halda áfram að anda og setja annan fótinn fram fyrir hinn. Allan tíman hafði ég sterka tilfinningu fyrir því í hvaða átt við vorum að fara og með því að stilla okkur saman um vorið virtust þær hugmyndir sem kviknuðu allar stefna í sömu átt.

Þessi aðferð er áhættusöm og tímafrek eins og lýðræði vill verða og ákfalega krefjandi. En kosturinn við þessa er að allir listamenn leiðangursins eru virkir og hafa tækifæri til að blómstra á ferlinu og útkoman í tilvikinu Úlfhamssaga er stærri en summan af okkur samanlögðum.

Deila