María Ellingsen

Leit
Close this search box.

Um leikstjórann

María nam leiklist við Tilraunaleikhúsdeild New York Háskóla og lærði þar að leika og leikstýra, mynda sterka liðsheild í leikhóp og skapa verk frá grunni.

Um leið og heimur verksins og átakapunktar hafa verið skilgreindir við borðið er leikhópurinn þjálfaður út á gólfi. Í grunnþjálfun leikhópsins notar hún aðferðir eins og upphitunarhring Grotowskis, Viewpoints, Plastics og Impulse og úr þeim verður til leikhústungumál sem hefur áhrif á frásagnamáta og hreyfimunstur sýningarinnar.

Þannig er byrjað á líkama og rödd, síðan farið inní veruleika verksins og andrúmsloft, þá persónurnar skapaðar og sambandið á milli þeirra. Textinn kemur svo inn seinastur og þá er innistæða fyrir honum og það er auðvelt að læra hann. Þessa aðferð er hægt að nota hvort sem um fyrifram skrifað leikrit er að ræða eða verk sem fæðist á æfingatímanum.

Helsta verkefnið er að byggja brú á milli spunans og handritsins, ef það tekst verður til einhver galdur, leikhús af líkama og sál og verkinu er miðlað til áhorfandans á mörgum plönum.

Þegar verk er að skapað frá grunni devised eða samsett sprettur það út úr vinnu hópsins dag frá degi og verður ekki til án hans. Valdastrúkturinn verður láréttur og leikstjórinn verður að leiðangursstjóra. María trúir því að lykilinn að kraftmikilli og lifandi leiksýningu sé að nýta sköpunarkraft leikarans kveikja í því púðri sem í honum er og fá hann til að blómstra. Þetta felur í sér þá áhættu að halda ferlinu opnu fram á síðasta dag, leyfa hverjum og einum í hópnum að hafa rödd og prófa allar hugmyndir sem svo fæða af sér aðrar. Hún hefur það fyrir reglu að tala minna og gera meira. Textahandritið verður til á æfingum og texti prófaður jafnóðum, honum hent, hann endurskrifaður og svo framvegis.

Oft verður titiringur í leiðangursmönnum á þessu ferðalagi því þeir upplifa sig oft á berangri og hættusvæði og sjá ekki út úr augum. Þá er mikilvægt fyrir leiðangursstjórann að vita það er partur af því að vinna svona að vera ekki viss og það er nauðsynlegt að halda það út og halda áfram að anda og setja annan fótinn fram fyrir hinn. Þessi aðferð er áhættusöm og tímafrek eins og lýðræði vill verða og ákaflega krefjandi. En kosturinn við þessa aðferð er að allir listamenn leiðangursins eru virkir og hafa tækifæri til að blómstra á ferlinu og útkoman oft stærri en summan af listafólkinu samanlögðu.

Deila