María Ellingsen

Leit
Close this search box.

Um leikarann

María Ellingsen er fædd í Reykjavík 22.janúar 1964 og er af íslensku, færeysku og norsku bergi brotin. Hún talar íslensku, færeysku, dönsku og ensku.

Hún fór snemma að leika á sviði og í kvikmyndum og hélt til Bandaríkjanna 20 ára gömul til að nema leiklist. Hún lauk BA gráðu frá The Experimental Theater Wing í New York Háskólanum 1988. Sú leiklistaraðferð sem var kennd við ETW byggði mikið á líkamlegri tjáningu, rödd og spuna í anda Grotowskis, sem heimsótti deildina og leiddi leiksmiðjur. Nemendur lærðu að frumsemja verk með Devised theater aðferðinni þar sem uppsprettan er orð, hlutur eða þema. Mikil áhersla var lögð á dans í anda Merce Cunningham, Mary Overlie kenndi Viewpoints, raddþjálfun var í anda Roy Hart og Avant garde leikstjórar á borð við Robert Wilson, Richard Forman og Ann Bogart voru meðal þeirra sem leikstýrðu nemendaleikhúsinu. Á sama tíma þjálfaði María sig í kvikmyndaleik í samstarfi við Kvikmyndadeild New York Háskóla og hafði við útskrift leikið í fjölda stutttmynda auk tveggja íslenskra kvikmynda í fullri lengd.

Við heimkomuna var hennar fyrsta hlutverk á leiksviði í Þjóðleikhúsinu og meðal hlutverka þar eru; Cecile í Hættuleg kynni og Miranda í Ofviðrinu. Hún fór svo aftur til New York til að bæta við sig leikhúsreynslu en tilboð um að leika hlutverk hinnar austurþýsku Katarinu í sjónvarpsþáttunum Santa Barbara bauð henni uppá tækifæri til að reyna fyrir sér í Hollywood. Þar var hún fyrst við upptökur á 170 þáttum seríunnar og síðan tóku hlutverk í bíómyndum við; m.a. New Age hjá Warner Brothers og Mighty Ducks 2 hjá Disney og Deadly Currents hjá Showtime.

Það var íslenska kvikmyndin Agnes sem kallaði hana heim til Íslands á ný en í henni lék hún titilhlutverkið, vinnukonuna sem drap ótrúa elskhugann sinn og týndi fyrir það eigin lífi á höggstökknum. María var valin besta leikkonan á kvikmyndahátíðinni í Verona, fyrir Agnesi. Síðan hafa hlutverkin verið mörg í leikhúsi, sjónvarpi og kvikmyndum á Íslandi og erlendis.

Annað Svið er sjálfstætt leikhús sem María  geymir í vasanum og tekur fram þegar gott leikrit knýr hana til framkvæmda. Þar á meðal hafa verið Sjúk í ást eftir Sam Shepard, Beðið eftir Beckett, Svanurinn eftir Elisabeth Egloff þar sem hún lék hjúkrunarkonuna Dóru sem verður ástfangin af svani og Salka Valka – ástarsaga í samstarfi við Hafnafjarðarleikhúsið þar sem hún lék Sölku. Þá kom Dans/leikhúsverkið Úlfhamssaga sem hlaut 7 tilnefningar til Grímuverðlauna. Þar steig María fram sem leikstjóri í fyrsta sinn og fór fyrir hópi listamanna við að smíða verkið upp úr íslenskum fornaldarrímum. Næst smíðaði María leikverkið MammaMamma með Charlottu Böving sem þær byggðu á samtölum við konur um það að vera mamma og eiga mömmu, Verkð þróuðu þær svo áfram með leikhópnum. Síðan tók við Ferðalag Fönixins – um listina að deyja og fæðast á ný sem frumsýnt var á Listahátíð í Reykjavík 2011, og var dansleikhúskonsert í anda Úlfhamssögu. Fönixinn sló í gegn og ferðaðist víða um Norðurlönd í kjölfarið. Næsta uppsetning  leikfélagsins var svo Enginn hittir einhvern eftir danska verðlaunaskáldið Peter Asmussen sem var frumsýnt í mars 2016 í Norræna Húsinu. Artic Women eftir Maríu,Juni Dahr og Reijo Kela um konur á Norðurslóðum og áhrif náttúrunnar á sálina var frumsýnt á bókmenntahátíðinni í Longyearbyen í september 2019, þar sem María lék á norksu. Það sem er eftir Peter Asmussen var frumsýnt í Tjarnarbíó í janúar 2022, þar sem María lék í sínum fyrsta einleik, Ólafur Egill Ólafsson leikstýrði. Í smíðum er María nú með Augun mín sem fjallar um þrjár skáldkonur sem í morgunsári 1900 aldar takast á við ástarsorg hver á sinn hátt og var fyrsta útgáfa verksins frumsýnt við New York Háskóla en íslensk útgáfa býður uppsetningar. Og síðast en ekki síst vinnur María að verkinu Trú, von og kærleikur leiknu verki um ævi Haralds Níelssonar sem var einn mesti áhrifamaður í andlegum málum Íslendinga á síðustu öld.

Deila