DDR / ÞaÐ sem eR

Uppsetning verksins er eins hrá og hún getur verið. Leikkonan situr á stól sem stendur á palli með áföstum ljóskösturum sem skiptast á að lýsa upp andlit hennar. Í þessari einlægu sýningu fær textinn og einstök tilfinninganæmni Maríu Ellingsen leikkonu að njóta sín til fulls.

Þessi naumhyggja og nánd við leikkonuna býr til nánd við verkið og söguna. Það er eiginlega ótrúlegt að í verki þar sem leikkonan stendur aldrei upp, varla hreyfir sig fyrir framan örfáa áhorfendur hafi ég beðið í ofvæni eftir hverju einasta orði og séð endurminningar lifna í lýsingum í bréfum Renötu þannig að atburðirnir stóðu mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Tilfinningarnar sem María ljær orðunum með hárfínum blæbrigðum raddarinnar eru stórkostlegar. Fíngerðar hreyfingar hennar meðan hún situr dáleiða áhorfandann og gefa honum tækifæri til að komast dýpra inn í verkið og komast inn í hugarheim Renötu.“Víðsjá / RÚV

Það sem er (Det Der eR / DDR) er einleikur eftir danska rithöfundinn Peter Asmussen, byggður á samnefndri skáldsögu hans frá árinu 2012. Sagan gerist í Berlín á kaldastríðsárunum, þegar hugmyndafræðilegur ágreiningur austurs og vesturs stóð sem hæst og Berlínarmúrinn klauf borgina í tvennt. Sögumaðurinn er ung þýsk kona, Renata, sem býr í Austur-Berlín á níunda áratugnum ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum. Á yfirborðinu virðist líf hennar með kyrrum kjörum, en smám saman kemur í ljós að ekki er allt sem sýnist, undir niðri búa leyndarmál, sorgir, duldar þrár og langanir. Leiktextinn samanstendur af bréfum sem Renata sendir leynilegum elskhuga sínum í Kaupmannahöfn, Dananum Tom, sem hún hefur aðeins hitt einu sinni. Í alræðisríki þar sem njósnir, hlerun og tvöfeldni eru daglegt brauð, hvar er pláss fyrir mennsku og raunverulegar tilfinningar? 

Það sem er er í senn saga um ást, svik, söknuð, sjálfsblekkingu, von, þrá og allt þar á milli. Múrana sem umkringja okkur, löngunina eftir frelsi og leitina að því sem er – og er ekki.

Höfundur: Peter Asmussen
Þýðing:
Auður Jónsdóttir
Leikkona:
María Ellingsen
Leikstjórn:
Ólafur Egilsson
Aðstoðarleikstjórn:
Melkorka Gunnborg Briansdóttir
Costumes:
Filippía Elísdóttir
Búningavinnsla:
Berglind Einarsdóttir
Gervi:
Guðrún Erla Sigurbjarnadóttir
Leikmynd:
Snorri Freyr Hilmarsson
Lýsing:
Björn Bergsteinn
Tónlist:
Ólafur Björn Ólafsson
Fiðlu- og víóluleikur:
Una Sveinbjarnardóttir
Sviðshreyfingar:
Anna Kolfinna Kuran 
Útlit: Christopher Lund

Deila