Ástsælasti gamanleikur allra tíma fór á svið Tjarnarbíós haustið 2025 undir merkjum Silfurskeiðarinnar.
Það var sannur heiður að fá að leiða hóp ungra leikara í gegnum sköpunarferlið sem skilaði þessari kraftmiklu sýningu. Enda ekki hægt annað en að segja já þegar tvær ungar nýútskrifaðar leikkonur fá jafn metnaðarfulla hugmynd að sínu debut-verki og að færast þetta í fang með enga peninga í höndunum. Þó gerði ég það með því skilyrði að fá til liðs við mig þau Magnús Thorlacius og Eyju Sigríði Gunnlaugsdóttur og saman skipuðum við leikstjórateymi til að halda utanum þetta stóra verkefni.
Við hófum ferlið á Jónsmessunótt á Kolstöðum í Borgarfirði þar sem hópurinn slípaðist saman og velti sér uppúr dögginni. Síðan tók við leiksmiðja þar sem tilraunaleikhúsaðferðir Grotowsky,s raddvinna Roys Hart og Viewpoints Ann Bogart og Mary Overlie settu tóninn. Sumarið fór í textalærdóm og svo hittumst við á ný í ágúst þar sem sviðsetning hófst. Ragnheiður Steindórsdóttir lagði okkur ómetanlegt lið við framsögn enda lykilatriði að hún sé uppá tíu til að verkið nái til áhorfenda. Gríðarlega gaman var að vinna með þýðingu Þórarins Eldjárns sem hann léði okkur af rausnarskap.
Þá kom annar hagyrðingur sterkur inni þegar Króli okkur til liðs við að gera texta við lokalag sýningarinnar: Nakin í Dögginni.
Sýningin var frumsýnd með miklum hátíðarblæ þar sem Forseti Ísland var viðstaddur og tók lagið með hópnum að sýningu lokinni. Ljóst var strax að leikgleðin á sviðinu smitaðist út í sal til áhorfenda og úr varð hin mesta gleðisprengja. Áhorfendur og gagnrýnendur luku lofsorði á sýninguna og urðum við að hætta fyrir fullu húsi þegar við vorum búin að sprengja sýningarkvótann í Tjarnarbíói.





