ÞaÐ sem eR / DDR frumsýnt

ÞaÐ sem eR / DDR var frumsýnt í dag 20. janúar í Tjarnarbíó.

Það sem er (Det Der eR / DDR) er einleikur eftir danska rithöfundinn Peter Asmussen, byggður á samnefndri skáldsögu hans frá árinu 2012. Sagan gerist í Berlín á kaldastríðsárunum, þegar hugmyndafræðilegur ágreiningur austurs og vesturs stóð sem hæst og Berlínarmúrinn klauf borgina í tvennt. Sögumaðurinn er ung þýsk kona, Renata, sem býr í Austur-Berlín á níunda áratugnum ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum. Á yfirborðinu virðist líf hennar með kyrrum kjörum, en smám saman kemur í ljós að ekki er allt sem sýnist, undir niðri búa leyndarmál, sorgir, duldar þrár og langanir. Leiktextinn samanstendur af bréfum sem Renata sendir leynilegum elskhuga sínum í Kaupmannahöfn, Dananum Tom, sem hún hefur aðeins hitt einu sinni. Í alræðisríki þar sem njósnir, hlerun og tvöfeldni eru daglegt brauð, hvar er pláss fyrir mennsku og raunverulegar tilfinningar? 

Það sem er er í senn saga um ást, svik, söknuð, sjálfsblekkingu, von, þrá og allt þar á milli. Múrana sem umkringja okkur, löngunina eftir frelsi og leitina að því sem er – og er ekki.

Deila