María Ellingsen

Leit
Close this search box.

María leikstýrir í nýju leikhúsi

Nýtt leikhús opnar um borð í Íslending í Víkingaheimum í Reykjanesbæ í maí. María Ellingsen leikstýrir opnunarsýningunni sem er hinn snjalli einleikur Brynju Benediktsdóttur um Ferðir Guðríðar. Þórunn Clausen bregður sér í allra kvikinda líki í sögu þessara ævintýrakonu, Snorri Freyr Hilmarsson gerir umgjörð, Björn Bergsteinn Guðmundsson hannar lýsingu og Sveinbjörg María Ingibjargardóttir búninga og Kjartan Kjartansson gerir hljóðmynd.

Víkingaheimar opnuðu fyrir tæpu ári síðan í glæsilegu nýju húsnæði þar sem skipið Íslendingur, völundarsmíð Gunnars Marels Eggertssonar er miðpunkturinn en auk þess er þar vönduð sýning um landafundi íslendinga og veitingahús.
Skipinu Íslending var siglt sömu leið og skipi Guðríðar og Þorfinns Karlsefnis 1000 árum fyrr og er því einstök umgjörð fyrir þessa sögu en áhorfendur fá að sitja um borð í skipinu og upplifa ferðalagið. En eins og Brynja sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkrum árum að þótt efni leiksins byggðist á ferðum þessarar víðförlustu konu miðalda væri verkið í raun ekki ferðasaga, heldur myndar ramma um sögu konu í hættulegum heimi, sögu um þann sem þorir að fara óhefðbundnar leiðir og taka á þeim sorgum og sigrum sem því fylgir.

Deila frétt